• Sími : 480 3046

Smalasaga

Hefurðu heyrt um ána
og hetjuna hann Stjána?
Snemma dags til dala
drengur fór að smala.
Út um alla móa
alltaf var að hóa,
hund einn lítinn hefur
honum skófir gefur.
Sauðfé saman elti
seppi hljóp og gelti.
Hjörð í húsið gengur
hópinn telur drengur.
Eina vantar ána,
æ, það var hún Grána.
Hann varð afar hræddur
hurðum lokar mæddur.
Lagði´ af stað í leitir
lengi göngu þreytir,
hana loks hann hitti
hálfdauða í pytti.
Ennþá dró hún anda
en ekki mátti´ hún standa.
Ekkert orð hann sagði
en ána´ á herðar lagði.
Hana´ í bæinn bar hann
býsna þreyttur var hann
hlúði´ að henni í heyi
og hjúkraði á nótt sem degi.
Á nýmjólk hana nærði
nýjan kraft það færði.
Ef menn eins og Stjáni
ynnu að hinna láni
hlýnaði´ í hugarvetri
og heimurinn yrði betri.