• Sími : 480 3046
09mar
2017
0

Lions klúbburinn Geysir í Biskupstungum og leikfélag UMF Bisk gáfu leikskólanum Álfaborg veglegar gjafir.

 

Við hér í leikskólanum Álfaborg getum verið þakklát fyrir svo margt og eitt af því er svo sannarlega fólkið hér í samfélaginu og góðvild þess. Eins og mörgum er kunnugt um þá kom upp mygla í leikskólanum síðastliðið sumar og þurftum við af þeim sökum að henda miklu af dóti leikskólans.  Ekki stóð á hjálpsemi og vinsemd sveitungana og á dögunum komu Lions menn og fulltrúi frá leikfélaginu UMF Bisk og færðu leikskólanum veglegar gjafir. Þeir Helgi Guðmundsson, Þórarinn Þorfinnsson og Guðmundur Ingólfsson, Lions menn með meiru,  komu færandi hendi með veglegan myndlistarvagn fyrir börnin. Öllu myndlistardótinu sem við áttum, var einmitt hent og er þetta því kærkomin gjöf. Við erum þeim mjög þakklát. Það er aldeilis ekki sjálfsagt að allir séu alltaf boðnir og búnir að aðstoða okkur og er ég mjög þakklát fyrir hönd leikskólans, af því hversu marga velunnara við eigum hér. Hildur María Hilmarsdóttir kom einnig færandi hendi og færði leikskólanum 300 þúsund krónur fyrir hönd leikfélagsins UMF Bisk. Það má því með sanni segja að samtakamáttur fólksins hérna í Bláskógabyggð sé mikill og við þökkum kærlega fyrir þá góðvild sem okkur er sýnd.